27. júní. 2014 11:01
„Við reynum eins og kostur er að verða við óskum fyrirtækja sem vilja byggja upp aðstöðu sína á Grundartanga. Þetta er traust og örugg uppbygging á svæðinu, fyrirtækjunum fjölgar smám saman,“ segir Guðmundur Eiríksson forstöðumaður tæknideildar Faxaflóahafna. Um þessar mundir er unnið að frágangi lóðar ofarlega í vesturhluta athafnasvæðis á Grundartanga, í krikanum þar sem ekið er niður að Járnblendiverksmiðjunni. Lóðin er fyrir fyrirtækið Rafmiðlun hf. sem hefur þjónað bæði Elkem Ísland og Norðuráli og ætlar nú að koma upp starfsstöð og aðstöðu á Grundartanga. Guðmundur segir að lóðin fyrir Rafmiðlun verði tilbúin 1. ágúst nk. og forsvarsmenn fyrirtækisins hyggi á byrjun framkvæmda með haustinu. Jafnframt verði við frágang þessarar lóðar gerðar lítilsháttar breytingar við gatnamótin niður á svæðið, með því að koma þar fyrir aðrein. Það er verktakafyrirtækið Þróttur á Akranesi sem vinnur verkið og einnig vinnur Þróttur í yfirborðsfrágangi, göngustígagerð og frágangi grassvæða sem og í frágangi svæðis við aðstöðu Faxaflóahafna.