30. júní. 2014 06:01
Um síðustu mánaðamót urðu breytingar hjá rannsóknadeild lögreglunnar á Akranesi. Jónas Hallgrímur Ottósson lögreglufulltrúi tók þá við starfi yfirmanns deildarinnar af Viðari Stefánssyni sem lét af störfum vegna aldurs eftir langt og farsælt starf hjá lögreglunni. Jónas kom til liðs við lögregluna á Akranesi árið 1999 en hefur síðustu árin starfað hjá rannsóknadeildinni. Hann byrjaði að sinna löggæslu hjá lögreglustjóranum á Ísafirði 1997 en sinnti þar áður kennslustörfum.
Rannsóknadeildin hjá lögreglunni á Akranesi vinnur að rannsókn alvarlegra sakamála og banaslysa fyrir öll lögregluembætti á Vesturlandi. Hjá deildinni starfa að jafnaði þrír við rannsóknir. Í samtali við Skessuhorn sagði Jónas að vegna breytinganna í yfirstjórninni núna yrðu aðeins tveir að störfum á deildinni í sumar en frá og með haustmánuðum yrðu þrír í starfi hjá rannsóknadeildinni.