30. júní. 2014 03:41
Orka náttúrunnar (ON) hefur í samstarfi við N1 sett upp nýja hraðhleðslustöð í Borgarnesi þar sem ökumenn rafbíla geta nú sótt sér snögga áfyllingu á bílinn. Stöðin sem stendur við N1 er sjöunda stöðin af tíu sem ON opnar á Suður- og Vesturlandi og sú fyrsta sem stendur við þjóðveg númer eitt. Fyrirhugað er að setja upp stöðvar í uppsveitum Suðurlands og í miðborg Reykjavíkur. Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur segir fyrstu hraðhleðslustöðina hafa verið opnaða í vor. „Svo hafa þær verið opnaðar hver á fætur annarri. Flestir eigenda rafbíla eru á höfuðborgarsvæðinu og hefur það ráðið staðsetningum stöðvanna. Með uppsetningu þessara stöðva er verið að reyna að auka drægi bílanna og þannig að auðvelda fólki að komast út úr borginni.“ Eiríkur segir flesta rafbíla geta nýtt þessar hleðslustöðvar og styttri tíma taki að hlaða bílinn á þeim en heima fyrir. „Það tekur um 20 mínútur að ná allt að 80% hleðslu í hraðhleðslustöð en það tekur um þrjá til fjóra tíma heima. Reynslan hér og erlendis sýnir þó að flestir hlaða bílinn yfir nótt,“ segir Eiríkur.
Sjá nánar í næsta Skessuhorni.