30. júní. 2014 07:58
Ferðamálastofa hvetur alla þá sem eiga samskipti við erlenda ferðamenn til að segja þeim frá spám um hvassviðri næstu daga. Algengt er að þeir ferðamenn sem fara um landið á eigin vegum treysti á veðurspár í snjallsímum og tölvum. Nú er víða þannig háttað til í dreifbýlinu að tölvu- og símasamband er stopult og þar ná þessir ferðamenn alls ekki veðurspám, jafnvel þótt þeir reyndu (frekar en heimafólk allt árið). Spáð er hvassviðri samhliða röð lægða sem ganga munu yfir landið næstu þrjá daga.
Loks er rétt að minna alla á að tryggingafélög firra sig ábyrgð gagnvart tjóni fjúki t.d. ferðavagnar eða hestakerrur á vegum þar sem hægt er að sanna að vindhraði hafi verið yfir 15 m/sek áður en óhapp átti sér stað.