02. október. 2014 09:58
Kranabíll með tengivagni í eigu Vegagerðarinnar fór út af Borgarfjarðarbraut á móts við Steðja í Flókadal í gærkvöldi. Engan sakaði. Óhappið varð þegar kraninn og bíll voru að mætast á veginum. Gaf þá vegkanturinn sig undan þunganum en vegaxlir eru gegnsósa eftir óvenju miklar rigningar að undanförnu. Tókst ökumanninum að koma í veg fyrir að tækið færi á hliðina með því að stýra því útaf. Óhapp þetta gerðist einungis nokkrum metrum frá þeim stað þar sem vegkantur gaf sig í júní með þeim afleiðingum að mjólkurbíll með tengivagni lenti útaf og valt. Kranabíll þessi er um 25 tonn að þyngd. Hann er notaður af brúarvinnuflokki Vegagerðarinnar við brúargerð og var verið að færa tækin að aflokinni brúarsmíði yfir Geitá á Kaldadal.
Unnið er að því í dag að koma kranabílnum aftur upp á veg. Sökum þyngdar hans þarf að taka úr vegöxlinni til að hægt verði að draga bílinn upp á veg að nýju. Samtímis þarf að halda við bílinn til að hann velti ekki. Sérstakrar varúðar þarf auk þess að gæta við verkið þar sem stofnæð hitaveitu OR frá Deildartungu að Borgarnesi og Akranesi er undir þeim stað þar sem kranabíllinn fór útaf.