12. janúar. 2005 02:37
Landbúnaðarháskóli Íslands, sem tók formlega til starfa um áramótin, hefur fengið nýtt logó. Það var Gísli B. Björnsson, teiknari FÍT sem hannaði merkið. Skólinn er nú í samstarfi við Gísla um merkingar á bréfsefnum, bílum, nafnspjöldum, pennum, fánum og skiltum á starfsstöðum skólans svo eitthvað sé nefnt. Grunneiningar í merki skólans eru tvö form sem tengjast og mynda stafinn L. Í forsendum fyrir hönnun merkisins var gengið út frá tveim meginlínum í starfi skólans. Í fyrsta lagi þeim verðmætum sem landið býr yfir og í öðru lagi hvernig farið er með þau verðmæti. Merkið átti ekki að vera mjög hefðbundið en hafa sterka skírskotun til þessa tíma þegar skólinn hefur starf sitt. Litirnir eiga einnig að undirstrika tvískiptinguna, appelsínugulir, rauðir og rauðbrúnir tónar í jarðlitum á neðra formi og á efra formi frá gulu í dökkgræna tóna gróðursins.