03. október. 2014 07:01
Lagningu ljósleiðara í Hvalfjarðarsveit lauk í lok sumars. Var það verktakafyrirtækið Þjótandi ehf sem annaðist verkið. Lagðar voru stofnlagnir í jörðu og eru hátt í tvö hundruð heimili nú tengd við ljósleiðarakerfið. Að sögn Einars Jónssonar hjá Hvalfjarðarsveit er tenging komin á í byggðinni allri og er reynslan til þessa afar góð. „Það átti eftir að blása í eitthvað hjá Ölveri og Hótel Venusi en í byggðinni allri er komin ljósleiðaratenging. 170 heimili eru komin með tengingu en einhverjir eiga eftir að leita til þjónustuaðila til að virkja hana,“ segir hann. Þjónustuaðilarnir Síminn og Vodafone eru nú báðir inn á kerfinu og getur fólk valið á milli þeirra vilji það virkja tenginguna. Einar segir ljósleiðarann blússvirka. „Þetta er alger bylting hjá öllum. Sjónvarpsskilyrði voru orðin svo slæm að þeir sem ekki höfðu örbylgjuloftnet voru orðnir sjónvarpslausir.“ Einar segir muninn á netinu einnig vera gífurlegan. „Einn maður lýsti gömlu tengingunni þannig að þegar hann kveikti á internetinu, þá fór hann inn í eldhús og hellti sér upp á kaffi. Þegar kaffið var komið í bollann, þá var Moggavefurinn komin upp. Núna opnast síðurnar strax.“