06. október. 2014 09:01
Síðastliðinn fimmtudag var Landbúnaðarsafn Íslands formlega opnað í Halldórsfjósi á Hvanneyri. Ullarselið flutti jafnframt starfsemi sína og verslun í anddyri fjóssins. Fjölmenni var saman komið til að fagna þessum merka áfanga. Í fjóshlöðunni fór fram samkoma þar sem bekkir voru þétt setnir. Björn Þorsteinsson rektor LbhÍ og stjórnarmaður í safnsstjórn stýrði samkomunni. Bjarni Guðmundsson fór í ávarpi yfir sitthvað er snertir varðveislu minja úr búnaðarsögunni, allt frá upphafi til dagsins í dag. Kolfinna Jóhannesdóttir sveitarstjóri Borgarbyggðar ávarpaði samkomuna og færði driffjöðrunum að safninu blóm. Loks var það handhafi borgfirsku menningarverðlaunanna; Karlakórinn Söngbræður, sem flutti nokkur lög undir stjórn Viðars Guðmundssonar. Jóhannes Ellertsson starfsmaður Landbúnaðarsafns setti loks forláta húna úr horni á hurð að safninu áður en það var formlega opnað með því að Anna Guðrún Ásgeirsdóttir, settur þjóðminjavörður, leysti reipishnút í fjósdyrunum og opnaði sýninguna formlega á nýjum stað.
Myndir frá opnunardeginum verða í næsta Skessuhorni.