08. október. 2014 10:01
Í undirbúningi er að vetrarþjónusta Vegagerðarinnar á Akrafjallsvegi, frá Hvalfjarðargöngum inn á Akranes, verði aukin frá og með haustinu. Þessi leið verði færð úr þjónustuflokki tvö í eitt, þó ekki að fullu þar sem þjónustan verði ekki veitt á tímabilinu frá miðnætti og til klukkan sex á morgnana. Einar Pálsson á þjónustudeild Vegagerðarinnar staðfesti í samtali við Skessuhorn að undirbúningur fyrir vetrarþjónustu miðaðist við breytingu á þessu svæði en eftir eigi að staðfesta hana í ráðuneytinu. Í þjónustuflokki eitt felst meðal annars meiri hálkueyðing og í þessu sambandi hefur m.a. verið tekið á leigu á Akranesi húspláss fyrir saltgeymslu. Einar hjá Vegagerðinni sagði að áfram yrði þó leiðin frá göngum og inn á Grundartanga í þjónustuflokki tvö, en áætlað væri að lengja þjónustutímann aðeins frá því sem nú er á þeim kafla Vesturlandsvegarins.