08. október. 2014 08:01
Bjarkey Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi tók til máls á Alþingi í gær til að ræða niðurskurð í framhaldsskólum á landsbyggðinni. Benti hún á að á sama tíma og verið væri að ræða flutning heillar stofnunar út á land, skeri Sjálfstæðisflokkurinn markvisst niður m.a. í framhaldsskólum landsins og fækki þar með störfum. Bjarkey bætti við: „Þetta hefur mikil samfélagsleg áhrif þar sem skólarnir á landsbyggðinni þurfa að hafa mikið fyrir tilvist sinni. Þeir halda nemendum í heimabyggð, það blómstrar menningarlífið, verslun og þjónusta styrkist og störfin verða til fyrir háskólamenntað fólk. Landsbyggðar framhaldsskólarnir hafa líka haft þá sérstöðu að eldri nemendur, sérstaklega konur, hafa fengið námstækifæri aftur. Stór hluti þeirra hefði ekki getað hafið nám t.d. með því að flytja í burtu eða fara í fjarnám,“ sagði Bjarkey.
Fram kom í máli Bjarkeyjar Gunnarsdóttur að hún óttaðist að með fjársvelti til framhaldsskóla á landsbyggðinni væri undirbúin fækkun framhaldsskóla á landsbyggðinni. „Er undirrótin kannski sú að gera þessa litlu skóla smám saman óstarfhæfa til að það þurfi að sameina þá eða leggja þá af? Er það byggðastefna Sjálfstæðisflokksins,“ spurði Bjarkey.