17. október. 2014 10:01
Nýverið var Sigvaldi Lárus Guðmundsson með sýnikennslu í reiðhöllinni á Miðfossum í Andakíl. Kennslan var vel sótt og sýndi Sigvaldi áhorfendum hvernig hann þjálfar upp hesta í byrjun vetrar. Fór hann yfir mikilvægi þess að yfirfara heilsufar hestsins áður en þjálfun hefst, svo sem tennur, fætur og holdafar. Talaði hann einnig um mikilvægi þess að vinna með hross í hendi áður en farið væri á bak, gefa sér tíma til að hita og mýkja hestinn upp, stilla svo kröfum í hóf fyrstu vikuna og byggja hestinn upp í rólegheitum. Miðvikudagskvöldið 22. október er svo stefnt á að hafa sýnikennslu í járningum með sjálfum Íslandsmeistaranum, Gunnar Halldórssyni, en það mun verða kynnt nánar þegar nær dregur.