20. október. 2014 08:46
Kuldaskil verða á leið suður yfir vestanvert landið í dag. Með morgninum hvessir af norðvestan og norðan um landið norðvestanvert og verður þar snjókoma og fjúk, einnig á láglendi. Þá verður einnig snjókoma og hálka í hægum vindi á fjallvegum vestanlands fram undir hádegi. Veður versnar og fer að snjóa á Norðurlandi um og upp úr hádegi. Á vegum eru nú hálkublettir á Mýrum og Vatnaleið en á Fróðárheiði er snjókoma og snjóþekja. Hálka er á köflum í Borgarfirði og norður yfir Holtavörðuheiði. Snjóþekja er á Bröttubrekku og sumsstaðar hálka eða hálkublettir í Dölum. Hálka eða snjóþekja er á fjallvegum á Vestfjörðum.