23. október. 2014 04:12
Á þriðja tug grunnskólanema á Akranesi mótmæltu verkfalli tónlistarkennara fyrir utan bæjarstjórnarskrifstofur sveitarfélagsins klukkan þrjú í dag. Óskuðu nemendurnir eftir fundi með Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra fyrr um daginn þar sem þau ætluðu að segja henni frá erindi sínu. Ekki var orðið við því og ákváðu nemendur því að efna til mótmæla. Aldís Ísabella Fannarsdóttir og Olga Katrín Davíðsdóttir fóru fyrir mótmælendum. Aldís Ísabella sagði í samtali við Skessuhorn að mótmælendur gerðu þá kröfu að samið verði við tónlistarkennara sem allra fyrst, því annars verði tónleikarnir Ungir gamlir felldir niður. Ungir gamlir er sameiginlegt tónlistarverkefni beggja grunnskólanna og Tónlistarskólans á Akranesi og eru tónleikarnir sýndir á Vökudögum á ári hverju. Aldís segir tónleikana vera í hættu þar sem nemendur nái ekki að æfa undir handleiðslu kennara á meðan á verkfallinu stendur. „Þau þurfa að hjálpa okkur að æfa, að setja saman hljómsveit og fleira. Við viljum því að það verði samið svo tónleikarnir í næstu viku verði ekki felldir niður. Okkur hefur verið sagt að það sé mjög erfitt að finna aðra dagsetningu þannig að tónleikarnir yrðu ekki sýndir fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári,“ sagði Aldís Ísabella.
Mikill metnaður er lagður í tónleikana á hverju ári og í ár er ráðgert að Eyþór Ingi og Friðrik Dór komi fram með nemendunum. Um er að ræða tvenna tónleika sem eiga að fara fram í Bíóhöllinni 30. október næstkomandi. Þeir fyrri eru fyrir nemendur grunnskólanna en seinni fyrir aðra gesti. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri kom fljótlega út og ávarpaði mótmælendur. Þar benti hún meðal annars á að það væri Samband sveitarfélaga sem væri í samningaviðræðum við Félag tónlistarkennara en ekki Akraneskaupstaður. Auk þess hrósaði hún nemendunum fyrir góða framgöngu í tónlistinni en þurfti á endanum að hverfa aftur til starfa við gerð fjárhagsáætlunar Akraneskaupstaðar.