29. október. 2014 12:46
Umbúðir Norðursalts á Reykhólum hlutu síðastliðinn föstudag hin virtu Red Dot verðlaun í Berlín fyrir einstaka hönnun. Meðal þeirra sem hlotið hafa verðlaun Red Dot um tíðina eru fyrirtæki á borð við Nike, Apple og Pepsí. Auglýsingastofan Jónsson & Le’macks sá um hönnun á umbúðum og merkjum Norðursalts í náinni samvinnu við Norður & Co félagið sem er á bak við framleiðsluna á saltinu sem að stórum hluta er handverk. Alls bárust Red Dot dómnefndinni 7.096 innsendingar í keppnina og fékk aðeins hluti þeirra sem sendu inn verðlaun fyrir hönnun sína. Nú þegar hafa umbúðirnar hjá Norðursalti hlotið Lúðurinn frá ÍMARK og FÍT-verðlaunin ásamt því að hafa verið tilnefndar til Silfurljónsins í Cannes.
Norðursalt er komið víða í dreifingu á Íslandi, Danmörku og Þýskalandi ásamt því að varan er að koma inn á fleiri markaði á Norðurlöndunum, í Belgíu og Austurríki á næstu mánuðum. Markmið framleiðandans er að hönnun og heildarupplifun neytenda eigi sér rætur á öllum stigum framleiðslunnar, frá gæðum vörunnar sjálfrar yfir í það að umbúðirnar veiti neytendum þær upplýsingar og þægindi sem hjálpa til að gera hversdagsmatinn betri.
Hönnunarferlið á umbúðum Norðursalts tók sjö mánuði, þar sem markmiðið var að endurspegla gæði saltsins og það sjálfbæra framleiðsluferli sem þar er að baki. Umbúðirnar hámarka því notendaupplifun með aðgengilegri skúffu, ásamt því að vera límlausar, sem veldur því að þær brotna hraðar niður í náttúrunni eftir notkun.