29. október. 2014 02:38
Menningarhátíðin Vökudagar hefst á Akranesi á morgun, fimmtudag. Hátíðin hefur verið haldin í bænum í mörg undanfarin ár og er orðin fastur liður í menningarlífinu í bænum. Dagskrá hátíðarinnar nær að þessu sinni yfir tíu daga, hefst fimmtudaginn 30. október og stendur til laugardagsins 8. nóvember. „Reyndar verða tónleikar á Bókasafni Akraness í kvöld, þar sem Skagamaðurinn Davíð Þór Jónsson kemur fram með hljómsveit sinni ADHD, sem gaf nýverið út sína fimmtu hljómplötu. Þeir munu því verða fyrstir til að nota flygilinn gamla, sem fluttur var úr Bíóhöllinni á Bókasafnið í síðustu viku vegna Vökudaganna og afmælishátíðar bókasafnsins,“ segir Anna Leif Elídóttir, verkefnastjóri hjá Akraneskaupstað. Opnunarviðburður Vökudaganna verða hádegistónleikar Hönnu Þóru Guðbrandsdóttur og Sveins Arnars Sæmundssonar sem haldnir verða í Vinaminni. Þar mun Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri opna hátíðina formlega. Frítt verður inn á tónleikana og boðið upp á súpu.
Dagskrá riðlaðist vegna verkfalls
Líkt og undanfarin ár er dagskrá hátíðarinnar býsna fjölbreytt. Viðburðirnir verða á ýmsum stöðum og munu teygja sig allt frá Miðgarði á Innnesi og niður á Breið. Þeir sem standa að viðburðunum eru á öllum aldri, allt frá leikskólabörnum í bænum til heimilisfólks á dvalarheimilinu Höfða. Leikskólarnir verða allir með sýningar, líkt og verið hefur undanfarin ár. Sýningar barnanna verða á Smiðjutorgi, í Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Tónlistarskólanum og á Höfða. Þær sýningar verða opnar alla Vökudagana. „Svo komu elstu deildir leikskólanna í heimsókn á Breið og fengu sögulega kynningu um svæðið. Í framhaldinu unnu börnin listaverk sem þau tengdu við Breiðina. Sú sýning verður opnuð laugardaginn 8. nóvember og verður í vitanum fram á haustið 2015.“ Anna Leif segir undirbúning Vökudaganna hafa gengið vel, en verkfall tónlistarkennara hafi þó sett strik í reikninginn. „Þetta hefur verið með hefðbundnum hætti. Við fengum sendar upplýsingar um viðburði fyrir síðustu mánaðamót og það hefur gengið nokkuð vel að raða þeim þannig upp að tímasetningar stangist ekki á. Dagskráin er sett upp í stundaskrá í ár, þar sem viðburðunum er tímaraðað. Þannig höfum við reynt að stýra því á þann veg að fólk geti farið á milli viðburða,“ útskýrir Anna Leif. Hún segir að dagskráin hafi þó breyst á lokasprettinum vegna verkfallsins. „Það falla því miður út stórir viðburðir sem höfðu verið fyrirhugaðir, líkt og tónleikarnir Ungir - Gamlir, súputónleikar í anddyri tónlistarskólans og fleira.“
Afmælishátíð og nýtt kaffihús
Líkt og fram hefur komið í Skessuhorni fagnar Bókasafn Akraness 150 ára afmæli á árinu. Afmælisdaginn ber upp á miðjum Vökudögum en Lestrarfélag á Akranesi var stofnað árið 1864. „Af því tilefni verða einhverjir viðburðir Vökudaga haldnir á bókasafninu og eins verða haldnir nokkrir afmælisviðburðir. Laugardaginn 1. nóvember verður haldin afmælisveisla fyrir börn þar sem gert verður sitthvað skemmtilegt, jafnvel farið í eltingaleik. Á meðan á veislunni stendur má vera með hávaða inni á safninu. Afmælisdagurinn sjálfur er 6. nóvember og þá verður afmælisdagskrá. Flutt verða ávörp, tónleikar, sögusýning opnuð, þar sem meðal annars má sjá 150 ára fundagerðarbækur og boðið upp á kaffi og konfekt.“
Að sögn Önnu Leif verður mikil menningarveisla á Vökudögunum. Viðburðirnir eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir og segir hún að erfitt sé að velja einhvern sem stendur upp úr. Á meðal viðburða í ár er leiksýning, kóratónleikar, ljósmyndasýning, dúllustund með graffara, þjóðahátíð og blúshátíð. Eins verða núverandi og fyrrverandi bæjarlistamennirnir Dýrfinna Torfadóttir og Erna Hafnes með sameiginlega sýningu í Vitakaffi og í Safnaskálanum í Görðum verður Sýning hinna glötuðu verka, sem er samsýning íslenskra og erlendra listamanna ásamt völdum verkum úr safneign Nýlistasafnsins.„Einnig verður viðburðaröð í fjórum mismunandi turnum á Akranesi. Hver viðburður stendur í um hálftíma og verður sá fyrsti í Klukkuturninum í Görðum. Svo verður farið í Krossvíkurvita, sem í daglegu tali er kallaður guli vitinn, síðan við kirkjuturninn í Akraneskirkju og svo verður endað í Akranesvita á Breið. Allt eru það listamenn sem tengjast Akranesi á einhvern hátt sem sjá um atriðin,“ segir Anna Leif. Hún bætir því við að flestir þeir listamanna sem eru með viðburði í ár séu Skagamenn eða tengist Skaganum á einhvern hátt. „Svo er nýbúið að opna nýtt kaffihús á Akranesi, Skökkina sem er við Akratorg. Þar verður krakkakaffi alla helgina, gítarspil og söngur á laugardeginum og föndrað og spilað á sunnudeginum. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á Vökudögum, jafnt stórir sem smáir.“
Sjá nánar um dagskrá Vökudaga í auglýsingu í Skessuhorni