18. janúar. 2005 07:52
Enn hefur ekki verið ákveðið hvort endurfjármagna eigi erlend lán Spalar með innlendum lánum. Þegar göngin voru gerð var ekki hægt að fjármagna verkið innanlands nema að hluta. Frá þessu var greint á ruv.is í gær. Þar segir Stefán Reynir Kristinsson, framkvæmdastjóri Spalar, að ef af endurfjármögnun yrði kæmi til greina að breyta gjaldskránni fyrir akstur um göngin. En það gæti einnig þýtt að lengri tíma tæki að borga göngin upp. Viss gengisáhætta fælist í því að halda lánunum óbreyttum en um leið borguðu göngin sig hraðar upp. Stefán sagði það hafa verið rætt hvort tvöfalda ætti göngin en það yrði í fyrsta lagi eftir allmörg ár. Væntanlegar framkvæmdir við Grundartanga bæru með sér mikla þungaumferð og visst öryggi fælist í því að hafa göngin tvöföld.