06. desember. 2014 09:01
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur farið hríðlækkandi að undanförnu. Vissulega hefur þetta ekki farið fram hjá neytendum enda hefur bensín, svo dæmi sé tekið, lækkað um rétt rúmar 30 kr. pr. lítra frá því um miðjan júlímánuð. Fram hefur komið í fjölmiðlum að olíufélögin hafa nýtt sér verðlækkanir á heimsmarkaði til að auka álagningu sína í krónum talið og má ætla að álagning þeirra á bensíni sé um þremur krónum hærri á lítrann í október og nóvember borið saman við álagningu eins og hún var níu fyrstu mánuði ársins. „Neytendasamtökin telja ekki eðlilegt að aðilar notfæri sér lækkun á heimsmarkaðsverði til að lauma inn hækkun álagningar og hvetja því olíufélögin til að draga þessa hækkun til baka. Það sama á við um díselolíu og má raunar með sömu rökum kalla eftir fjögurra króna verðlækkun þar,“ segir í tilkynningu frá Jóhannesi Gunnarssyni formanni Neytendasamtakanna.