18. desember. 2014 03:00
Hvað fær ungan kennara og jógakennara til að fara úr kennslu í fjölmennum, nýlegum skóla í Reykjavík, til að kenna í fámennum skóla vestur í Dölum? Þetta er spurning sem vert er að velta fyrir sér og spyrja Þórdísi Eddu Guðjónsdóttur um. Hún flutti til Búðardals í haust og hóf kennslu við Auðarskóla eftir að hafa kennt um árabil í Ingunnarskóla í Grafarholti í Reykjavík. „Síðan ég byrjaði að kenna þá hefur mig alltaf langað að prófa að kenna úti á landi. Ég er sjálf úr sveit og gekk í lítinn skóla og langaði því að vita hvernig það væri að kenna í minni skóla. Núna var akkúrat tíminn fyrir mig að breyta til og þegar ég sá að auglýst var eftir kennurum hingað í Auðarskóla bað ég um ársleyfi frá Ingunnarskóla, sem ég fékk, og sótti hér um.“