Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Smáauglýsingar

3ja herb Íbúð á Bifröst

3ja herb íbúð,, 65,4 fm. til leigu á Bifröst Íbúðin getur verið laus mjög fljótlega Upplýsing...
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
21. desember. 2014 12:50

Óttast óbætanlegt tjón á einstökum fornminjum um útræði frá Gufuskálum

Tíðir vetrarstormar hafa leikið rannsóknasvæði fornleifafræðinga á Gufuskálum grátt að undanförnu. Vísindafólkið óttast að orðið hafi óbætanlegt tjón á merkum menningarminjum. „Þetta lítur bara skelfilega út. Af þeim ljósmyndum að dæma sem Þór Magnússon á Gufuskálum hefur sent okkur þá virðist eyðileggingin vera mikil. Sjórinn er búinn að fletta miklu af jarðvegi í burtu og kasta til grjóti úr vegghleðslum sem þá er komið niður á klettana,“ segir Lilja Björk Pálsdóttir fornleifafræðingur við Fornleifastofnun Íslands í samtali við Skessuhorn.  „Miðað við myndirnar sem ég hef séð þá er afskaplega mikið farið af þeim gömlu verbúðum sem við vorum að rannsaka snemma í sumar. Sennilega er meiripartur þeirra nú horfinn.“

 

Lilja segist hrædd um nú hafi orðið mikið og óbætanlegt menningarsögulegt tjón. Fornleifafræðingar frá Íslandi, Bandaríkjunum og Skotlandi hafa undanfarin ár stundað rannsóknir á verbúðarústunum á Gufuskálum. Þær hafa leitt í ljós að fiskur var veiddur og verkaður þarna alveg frá byrjun 15. aldar og fram á 18. öld. Umfangið var þó mest á 15. og 16. öld. „Í sumar vorum við komin niður á elstu búsetuminjarnar í þeim verbúðum sem við vorum að rannsaka. Við vorum þó ekki búin að fullgrafa í þeim. Sem betur fer vorum við þó búin að teikna upp veggi verbúðarinnar. En ég óttast að elstu gólflögin og ruslalögin séu nú horfin. Í þeim var án vafa að finna miklar upplýsingar um verbúðalífið þarna á Gufuskálum og utanverðu Snæfellsnesi á 14. og 15. öld.  Með þessum uppgreftri þarna vorum við þegar búin að fá ómetanlegar upplýsingar um sjósókn og verbúðir á Gufuskálum á 15. öld.“

 

Að sögn Lilju er svo að sjá sem öll strandlengjan við Gufuskála hafi látið á sjá í briminu undanfarið. Stór verbúðarhóll þarna skammt frá staðnum sem rannsakaður var í sumar, sem átti alveg eftir að kanna virðist hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum.

 

 

Blaðamaður Skessuhorns heimsótti uppgraftarsvæðið í júní síðastliðinn. Þá benti Lilja á að þessar minjar væru í bráðri hættu á að hverfa vegna ágangs sjávar. „Ég veit ekki alveg hvað tekur við nú. Minjastofnun ákvað í haust að meta þetta svæði upp á nýtt með tilliti til þess hversu merkilegt það er. Ég hef sótt um meira fjármagn til rannsókna þarna úr Fornminjasjóði. Það skýrist nú 5. janúar hvað út úr því kemur.“

 

Þór Magnússon á Gufuskálum sem skoðað hefur svæðið og tekið myndir af skemmunum segir greinilegt að sjór hafi gengið yfir stórt svæði þar sem verbúðarrústirnar séu og allt vestur að Írskrabrunni. „Sjónin sem mætti fékk manni til að líða dapurlega fyrir hönd fornleifafræðinganna sem eru búin að leggja gríðarlega og frábæra vinnu í þessar rannsóknir. Það hefur bæði orðið landbrot og gróðurskemmdir,“ segir hann.

 

Sjálf segist Lilja Björk Pálsdóttir fornleifafræðingur ætla að fara vestur á Gufuskála og skoða svæðið um leið og hún hefur tök á eftir hátíðarnar til að meta frekar það tjón sem hefur orðið.

 

Sjá einnig Jólablað Skessuhorns 2014.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is