05. janúar. 2015 02:29
Lögreglumaður á vakt í Stykkishólmi aðfararnótt sunnudags varð var við eld í húsi einu í bænum skömmu eftir að hann kviknaði. Húsið er gamall braggi þar sem m.a. er starfrækt vinnustofan Gallerí Braggi. Í ljós kom að vanheill maður í bænum hafði kveikt eld í húsinu og farið inn í það eftir að eldur tók að loga. Það var fyrsta verk lögreglumannsins að reyna að ná manninum út og tókst það eftir að hafa fengið til aðstoðar aðstandanda mannsins. Slökkvilið Stykkishólms kom á vettvang skömmu síðar og tók skamma stund að ráða niðurlögum eldsins. Að sögn lögreglunnar á Vesturlandi urðu talsverðar skemmdir af eldi og reyk í bragganum. Bæði lögreglumaðurinn og sá sem eldinn kveikti fengu snert af reykeitrun en voru báðir útskrifaðir af sjúkrastofnunum á sunnudag. Maðurinn sem kveikti í var færður á stofnun í Reykjavík og er vistaður þar.