07. janúar. 2015 02:01
Á forsíðu Skessuhorns í síðustu viku gat að líta fallega ljósmynd. Hún var tekin að kvöldi annars dags jóla á Eiríksstöðum í Haukadal, við bæ Eiríks rauða Þorvaldssonar, vandræðamanns af Vesturlandi sem varð fyrstur norrænna manna til að nema land á Grænlandi eins og frægt er af fornum sögum. Ljósmyndin sýnir hvernig norðurljósin loguðu yfir Vesturlandi þetta kvöld. Steinunn Matthíasdóttir í Búðardal tók þessa mynd. „Þetta er frístundaáhugamálið. Algerlega. Ég er forfallinn áhugaljósmyndari,“ segir hún í samtali við Skessuhorn.
Í blaðinu sem kom út í dag birtist ítarlegt viðtal við Steinu, en hún er grunnskólakennari í leyfi frá kennslu. Þessi misserin starfar hún í KM þjónustunni í Búðardal, rekur verslun og fyrirtækið ásamt manni sínum.