07. janúar. 2015 03:39
Hurðir sem stolið var af traktorsgröfu sem stóð á bílastæði við Hernámssetrið í Hvalfirði í nóvember síðastliðinn eru fundnar. Í byrjun desember birti Skessuhorn frétt um þjófnaðinn bæði í blaðinu og á vefnum. Fréttin var mikið lesin og fór víða þar sem margir deildu henni á Facebook. Þetta leiddi beinlínis til þess að hurðirnar fundust.
„Grafan hafði staðið í eina til tvær vikur á bílastæðinu við Hernámssetrið á Hlöðum hér í Hvalfirði. Við höfðum lagt vélinni þar eftir að hafa notað hana í nágrenninu. Hún stóð þarna vegna þess að við höfðum ekki þörf fyrir að nota hana í nokkra daga. Einn morguninn voru hurðirnar svo horfnar,“ sagði Jónas Guðmundsson verktaki á Bjarteyjarsandi í samtali þá við Skessuhorn. Tjónið var tilfinnanlegt því nýjar hurðir kosta hátt í eina milljón króna komnar til landsins.
Nú um hátíðarnar komu hurðirnar svo í leitirnar í fórum manns sem býr sunnan Hvalfjarðar. Hann hafði tekið þær ófrjálsri hendi. Það var Sigurbjörn Hjaltason á Kiðafelli í Kjós sem fann þær eftir að hafa einmitt lesið fréttina um hvarf þeirra á vef Skessuhorns. „Já, ég var búinn að sjá fréttina og vissi af málinu og bar því kennsl á þær þegar ég sá þær þar sem ég var að leita að dekkjum sem ég saknaði,“ segir Sigurbjörn.
Sjálfur eigandi hurðanna, Jónas á Bjarteyjarsandi, er kampakátur með að hafa endurheimt þær. Hann átti ekki von á því að sjá neitt til þeirra meir en máttur nútíma fjölmiðlunar í bland við góðan og árvökulan nágranna í Kjósinni breytti því. „Ég var reyndar búinn að panta nýjar hurðir að utan. Þær eru í skipi á leið til landsins. Ég ætla að nota þær en gömlu hurðirnar fara til nýs eiganda vestur í Súgandafirði. Þær koma því að góðum notum fyrir rest,“ segir Jónas.
Málið telst þar með upplýst. Það er nú í höndum réttvísinnar sem ákveður frekara framhald.