08. janúar. 2015 11:03
Snemma árs 2013 kom saman umferðarhópur sem samanstóð af 14 fulltrúum allra vegfarendahópa í umferðinni hér á landi. Nú hefur þessi hópur samið og kynnt svokallaðan Umferðarsáttmála. „Því má segja að sáttmálinn sé búinn til af þjóðinni sjálfri þar sem hún tilgreinir þá hegðun sem hún vill sjá í umferðinni á vegum úti,“ segir í tilkynningu frá verkefnishópnum. Í tengslum við þessa vinnu hefur lögregla, Samgöngustofa, Ökukennarafélag Íslands og Frumherji útbúið viðhafnarskjal með Sáttmálanum sem til stendur að afhenda hér eftir öllum þeim sem ljúka ökunámi til undirritunar og eignar. Það var svo í gær sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands afhenti fjórum nýliðum í umferðinni Umferðarsáttmálann sem þeir höfðu áður skrifað nöfn sín undir. Það voru þau Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Bjarni Máni Jónsson, Þuríður Björg Björgvinsdóttir og Davíð Reynisson sem tóku við sáttmálanum úr hendi forsetans.
Mikið hefur áunnist í umferðaröryggismálum á undanförnum árum. Ýmsar ástæður hafa verið nefndar í því sambandi, eins og bætt vegakerfi, betri ökukennsla, refsipunktar fyrir umferðarlagabrot og fleira. „Við hjá Frumherja erum stolt af því að hafa getað tekið þátt í þessari vegferð, bæði með vandaðri skoðun ökutækja og ekki síður með faglegri framkvæmd ökuprófa,“ segir Orri Hlöðversson framkvæmdarstjóri Frumherja af þessu tilefni.
Ljósm. Gísli hjá True Adventure.