11. janúar. 2015 03:13
Ágúst Júlíusson sundmaður var á föstudaginn kjörinn íþróttamaður Akraness 2014. Samkoman fór fram í íþróttahúsinu við Jaðarsbakka að aflokinni þrettándabrennu og skemmtun á Þyrlupallinum. Ágúst Júlíusson hefur stundað sund frá unga aldri og margoft orðið Íslandsmeistari. Hann átti mjög gott ár í fyrra og er vel að heiðrinum kominn. Annar var Egill G Gunnarsson badmintonmaður og þriðja kylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir. Á samkomunni var Sturlaugur Sturlaugsson fráfarandi formaður ÍA sæmdur gullmerki Íþróttabandalags Akraness fyrir áratuga störf í þágu félagsins. Á samkomunni var íþróttafélögum sem áttu Íslandsmeistara á árinu, samkvæmt gildandi reglum, veitt peningaverðlaun frá Akraneskaupstað.
Gott ár hjá Ágústi
Ágúst Júlíusson setti á Íslandsmeistaramótinu í sundi Akranes- og Íslandsmet í 50 metra flugsundi í 50 m laug. Á sama móti varð hann í annar í 100m flugsundi, aðeins hársbreidd frá gullverðlaunum. Hann kom, sá og sigraði á ÍM 25. Þar synti hann mun betur en nokkurn hafði órað fyrir, nýrisinn upp úr meiðslum. Hann varð tvöfaldur Íslandsmeistari í 50m og 100m flugsundi og setti tvö Akranesmet. Hann var einnig mjög nálægt lágmörkum fyrir Heimsmeistaramótið í 25m laug í 50m flugsundi. Hann hefur oft farið til keppni erlendis fyrir Íslands hönd á sundferli sínum.
Önnur og þriðju verðlaun
Annar í kjörin varð badmintonmaðurinn Egill G. Gunnarsson. Egill er í A-landsliði Íslands og keppir fyrir ÍA í meistaraflokksmótum. Hann er annar á styrkleikalista Badmintonsambands Íslands í einliðaleik og í þriðja sæti í tvenndarleik. Egill komst í úrslit á öllum mótum ársins og tók þátt í undankeppni EM með A-landsliði Íslands.
Í þriðja sæti í kjörinu um Íþróttamann Akraness varð kylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir. Hún hefur verið í hópi fremstu kylfinga landsins undanfarin ár og hefur verið atvinnukylfingur undanfarin misseri eftir að hún lauk háskólanámi í Bandaríkjunum. Í sumar varð hún í þriðja sæti á Íslandsmótinu í höggleik. Nú tekur hún þátt í úrtökumótum erlendis í keppni um að komast á Evrópumótaröðina í golfi.
Hlaut gullmerki ÍA
Sturlaugur Sturlaugsson gullmerkishafi ÍA hóf feril sinn sem sundmaður hjá Sundfélagi Akraness og varð síðar þjálfari félagsins. Þá var hann formaður Sundfélags Akraness á árunum 1983-1990. Í kjölfar þess var hann kosinn í framkvæmdastjórn Íþróttabandalags Akraness og þar af formaður ÍA samfellt í 15 ár, frá 1999 - 2014. Sturlaugur hefur unnið ómetanlegt starf fyrir ÍA og verið ötull baráttumaður fyrir bættri aðstöðu til íþróttaiðkunar á Akranesi. Fyrir það var honum nú veitt gullmerki ÍA og sæmdarheitið heiðarsfélagi ÍA.
Eftirfarandi íþróttamenn voru tilnefndir af sínum félögum að þessu sinni:
Badmintonmaður ársins: Egill G. Guðlaugsson
Fimleikakona ársins: Ragna Dís Sveinbjörnsdóttir
Hestaíþróttamaður ársins: Svandís Lilja Stefánsdóttir
Hnefaleikamaður ársins: Guðmundur Bjarni Björnsson
Íþróttamaður Þjóts: Sigurður Smári Kristinsson
Karatekona ársins: Elsa María Guðlaugsdóttir
Kylfingur ársins: Valdís Þóra Jónsdóttir
Keilumaður ársins: Skúli Freyr Sigurðsson
Knattspyrnumaður ársins: Garðar Bergmann Gunnlaugsson
Knattspyrnukona ársins: Maren Leósdóttir
Knattspyrnumaður Kára: Ragnar Már Viktorsson
Kraftlyftingamaður ársins: Einar Örn Guðnason
Körfuknattleiksmaður ársins: Zachary Jamarco Warren
Sundmaður ársins: Ágúst Júlíusson
Vélhjólaíþróttamaður ársins: Björn Torfi Axelsson.