Loðnuveiðar fara frekar rólega af stað um 100 sjómílur norður af Melrakkasléttu. Loðnan mun vera dreifð og lítið um stórar torfur.
,,Við tókum fyrsta holið í gær og fengum þá þokkalegan afla. Síðan var aftur togað í nótt en með minni árangri og við vorum svo að ljúka við þriðja holið fyrir stundu. Mest höfum við togað í um sex tíma í einu,“ sagði Albert Sveinsson skipstjóri á Faxa RE í samtali við fréttavef HB Granda.
Um 42 loðnur munu vera í kílóinu miðað við prufu frá því í gær, og lítið er um átu í fiskinum. Það þykir þokkalega væn loðna. Óvissa er um frystingu á loðnu fyrir Rússlandsmarkað vegna efnahagsörðugleika þar. Mun hlutfallslega mikið af loðnuförum til þessa því hafa farið beint til bræðslu og framleiðslu á fiskimjöli og lýsi.
Auk Faxa voru hin tvö uppsjávarveiðiskip HB Granda, Ingunn AK og Lundey NS, á svipuðum slóðum. Þar voru einnig Sigurður VE og Heimaey VE.
,,Ingunn er að klára fyrsta holið en það er sama staða hjá hinum skipunum og okkur. Það er rólegt yfir aflabrögðunum. Það væri ákjósanlegt að ná 600 til 700 tonna afla áður en farið verður til löndunar á Vopnafirði og vonandi tekst okkur að ná því sem upp á vantar í kvöld og á morgun. Á þriðjudag er spáð brælu en annars er búið að vera besta veður hér á miðunum frá því í gær,“ sagði Albert Sveinsson.