13. janúar. 2015 09:54
Í samantekt um skipakomur hjá Faxaflóahöfnum á síðasta ári kemur fram að heildarfjöldi skipa yfir 100 brúttótonn sem komu til hafna á árinu 2014 var 1.406 og er það fækkun um 66 skip frá árinu 2013. Hins vegar eykst brúttótonnafjöldinn um 408.000 tonn og var árið 2014 samtals 9.117.949 tonn. Í tilkynningu á heimasíðu Faxaflóahafna segir að athyglisverð þróun hafi verið í skipakomum undanfarin ár. Helst beri að nefna að eftir hrun fækkaði komum flutningaskipa en þeim hefur fjölgað aftur og fiskiskipum hefur fækkað, þó svo að brúttótonnafjöldi þeirra hafi aukist verulega. Þá hefur orðið fjölgun í komum skemmtiferðaskipa og stærð þeirra aukist verulega síðustu ár. Þróun í komum fiskiskipa er athyglisverð að því leyti að komum þeirra hefur fækkað en stærð þeirra vaxið. Þannig hefur frá árinu 2010 fækkað komum fiskiskipa um 18% eða um 129 komur á meðan brúttótonn þeirra hefur aukist um 7% eða um tæp 56.000 tonn.