14. janúar. 2015 12:24
Sæmundur Sigmundsson bílstjóri í Borgarnesi er áttræður í dag. Hann er að heiman á afmælisdaginn, flaug úr landi í morgun til að fara á bílasýningu í Bretlandi. Félagar hans í Fornbílafjelagi Borgarfjarðar hafa þó ekki gleymt honum. Í kvöld efna þeir til hátíðarkvölds Sæmundi til heiðurs í húsakynnum félagsins sem jafnframt hýsa glæsilegt samgöngusafn í kjallara gamla sláturhúss KB í Brákarey í Borgarnesi. Í tilkynningu á Facebook-síðu Fornbílafjelagsins segir svo:
"Sæmundur okkar Sigmundsson verður 80 ára þann 14. janúar. Hann verður ekki á landinu en við ætlum samt að halda uppá það í Samgöngusafninu kl 20.00, fólk er hvatt til þess að segja af honum skemmti- og hetjusögur. Doktorinn ætlar að skella í einsog eina rjómatertu og vera með eitthvað sem kallast léttar veitingar. Hver veit nú hvað það þýðir en doktorinn sagði að þeir sem fengju eitthvað af þessum léttu veitingum mættu alavegana ekki færa til safnmuni og væri kannski betra að láta eitthvern annan keyra heim..... En allavegana þá verður keppst um bestu hetjusöguna í óútkomna bók sem verður bönnuð yngri en 18 og verðlaun fyrir þann sem getur komið með nákvæman fæðingartíma Sæmundar (það þarf að færa sönnur á það). Eigum saman góða kvöldstund í Brákarey til heiðurs góðum félaga sem er í bílaleiðangri á afmælinu sínu en ekki hvað?"
Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.