14. janúar. 2015 04:01
Mjög fækkar nú í þeirri stétt manna sem um árabil þótti með mestu valda- og virðingarstöðum í landinu. Þetta eru sýslumennirnir en þeim var nú fækkað um síðustu áramót þegar í garð gengu breytingar á sýslumannsumdæmum í landinu. Meðal þeirra sýslumanna sem þá létu af störfum var Stefán Skarphéðinsson sem var sýslumaður Mýramanna og Borgfirðinga í rúm 20 ára, eða frá 1994. Þar áður var hann sýslumaður Barðstrendinga á Patreksfirði. Blaðamaður Skessuhorns kíkti í heimsókn til Stefáns á heimili hans að Helgugötu í Borgarnesi í byrjun ársins, eða skömmu eftir að hann lét af störfum. Lausnarbréfið frá ráðuneytinu var meira að segja ennþá á stofuborðinu. Það sem vakti þó meiri athygli blaðamanns eftir að hann hafði heilsað Stefáni var skemmtileg svart-hvít mynd þar sem páfi heilsar manni í lögreglubúningi. Þetta var mynd frá því að Jóhannes Páll II kom í heimsókn til Íslands sumarið 1989. Í heimsókn í Landakotskirkjuna sté hann um stund til hliðar frá sínu fylgdarliði og gekk beint að lögreglumanni í heiðursverðinum og heilsaði honum. Þetta var Skarphéðinn Loftsson faðir Stefáns sem lengi var lögreglumaður í Reykjavík. „Hann heilsaði föður mínum eins og þeir þekktust vel, væru úr sömu sveit. Ég hef alltaf haldið mikið upp á þessa mynd,“ segir Stefán.
Rætt er við Stefán Skarphéðinsson í Skessuhorni vikunnar.