16. janúar. 2015 06:01
Magnús Jónsson og synir hans í Seljanesi í Reykhólasveit eru einlægir áhugamenn um gamla bíla og dráttarvélar. Auk þess safna þeir ýmsum gömlum tækniminjum eftir því sem hönd á festir. Elstur þeirra bræðra er Stefán Hafþór – oftast kallaður Stebbi í Seljanesi. Nú í lok desember fyllti hann fimmtugsaldurinn. Þrátt fyrir að Stefán búi og starfi á höfuðborgarsvæðinu þá var haldið upp á afmælið heima á æskuslóðunum í Seljanesi. Þangað var boðið vinum og sveitungum til veislu sem haldin var á verkstæðinu og í útihúsunum á bænum en þar var búskapur lagður af fyrir allmörgum árum. Þar sem áður voru kindur standa nú gamlir bílar og traktorar. Margt hvert ökutækið gengið í endurnýjun lífdaga eftir vandaða uppgerð úr svo bágbornu ástandi að flestir hefðu dæmt ónýtt. Stefán hefur haft mikilvægt hlutverk í þeim störfum sem skapað hafa það safn sem nú má sjá í Seljanesi.
Svipmyndir úr afmælinu og spjall við Stefán er í Skessuhorni vikunnar.