16. janúar. 2015 10:25
Skallagrímsmenn börðust vel og lögðu mikið í sölurnar þegar Grindvíkingar komu í heimsókn í Borgarnes í Dominosdeild karla í körfuboltanum í gær. Jafnt var eftir venjulegan leiktíma 77:77. Það var eins og allt bensín væri búið á tönkum heimamanna í framlengingunni sem gestirnir unnu 18:3. Lokatölur því 95:80 fyrir Grindavík og Skallagrímur sem fyrr í tíunda sæti deildarinnar með aðeins fjögur stig.
Skallagrímsmenn voru yfir eftir fyrsta leikhluta, 25:24. Leikurinn var hnífjafn og gestirnir voru tveimur stigum yfir í hálfleik 50:48. Grindvíkingar voru aðeins betri í þriðja leikhlutanum og höfðu fjögurra stiga forystu fyrir lokafjórðunginn. Þá var hart barist og háspenna á lokamínútunum, lítið skorað. Skallagrímsmenn sýndu gríðarlega baráttu og eins og áður segir jafnt þegar lokaflautið gall við. Tracy Smit skoraði 25 stig fyrir Skallagrím, Magnús Þór Gunnarsson 24, Davíð Ásgeirsson og Sigtryggur Arnar Björnsson 11 stig hvor, Daði Berg Grétarsson 7 og Egill Egilsson 2.
Vesturlandsslagur verður í Hólminum í næstu umferð Dominosdeildarinnar sem fram fer á bóndadaginn, föstudagskvöldið 23. janúar.