16. janúar. 2015 03:01
Afar vel miðar í uppgerð hinnar sögufrægu rútu Soffíu II sem var smíðuð í Bílasmiðju G. Kjerúlf í Reykholti árið 1962 ofan á grind af gömlum breskum hertrukk sem kom til Íslands á stríðsárunum. Hún var notuð um rúmlega þriggja áratuga skeið til skólaaksturs á Kleppsjárnsreykjum í Borgarfirði á veturna en á sumrin var hún í hálendisferðum með ferðamenn. Fjöldi fólks á ljúfar minningar tengdar þessum bíl. Soffíu II var bjargað frá glötun og uppgerð hennar hófst síðan haustið 2013. Það er Elínborg Kristinsdóttir ekkja Guðna Sigurjónssonar bílasmiðs og bifvélavirkja sem upphaflega vann að smíði bílsins sem hefur staðið fyrir uppgerðinni ásamt afkomendum þeirra og öðrum velunnurum Soffíu II.
Margar hendur hafa unnið afar gott verk. Búið er að endurnýja allt ytra byrði bílsins og mála í sömu litum og hún hafði á velmektardögum sínum. Byrjað er að setja í hana nýjar rúður. Að innan er búið að leggja dúk á gólf og brátt verða nýklædd sætin klár til ísetningar. Það hillir undir að Soffía verði komin í sinn nýja kjól á vordögum, gengin í endurnýjun og tilbúin í ný ævintýri þó hún sé að stofninum til óðum að nálgast áttrætt. Meðfylgjandi myndir eru birtar með góðfúslegu leyfi af Facebook-síðu Soffíuverkefnisins sem heitir einfaldlega Soffía. Þar má fylgjast með framvindu verka.