16. janúar. 2015 01:11
Erlendir fjölmiðlar hafa sýnt ljósmynd Jóns Hilmarssonar, skólastjóra í leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar, af norðurljósum yfir Akrafjalli mikinn áhuga. Myndin hefur vakið mikla athygli víða um heim en norðurljósin taka á sig skemmtilegt form á myndinni. Myndin er næstum ársgömul. Á liðnu ári hafa margir deilt myndinni á samfélagsmiðlum og telja margir að í norðurljósunum á myndinni megi sjá útlínur engils. Fjölmiðlar segja þó að greinilega megi sjá líkindi með norðurljósunum yfir Akrafjalli og styttunni af Jesú Kristi, sem vakir yfir borginni Ríó de Janeiro. Það voru breskir miðlar sem birtu myndina fyrstir en aðrir fjölmiðlar í heiminum hafa fetað í fótspor þeirra, svo sem abc NEWS, African Spotlight ásamt fjölmörgum öðrum. Jón er áhugaljósmyndari og þykir ansi liðtækur enda hafa myndir hans vakið athygli á landsvísu. Hann hóf að taka myndir 2007 og hefur verið afkastamikill síðan, hefur meðal annars gefið út tvær ljósmyndabækur. Hægt er að skoða myndir hans á Flickr-síðunni https://www.flickr.com/people/jonrrr/
Sjá má fréttir erlendra fjölmiðla meðal annars með því að smella hér og hér.