20. janúar. 2015 06:01
Refir á Vestfjörðum og Vesturlandi éta bæði fisk og egg að vetrarlagi. Slíka fæðu er hins vegar ekki að finna í mögum refa á sunnanverðu, austanverðu og norðanverðu landinu. Eggin voru væntanlega forði frá vorinu áður og líklega úr fýl. Svartfugl fannst eingöngu í mögum af vestanverðu landinu. Rjúpur voru lítið eitt algengari á austanverðu landinu en vestanvert. Fýlar og máfar fundust frekar í mögum vestanlands en í öðrum landshlutum. Hagamýs eru líka ofarlega á vetrarmatseðli refa á vestanverðu landinu en sjaldgæfari annars staðar. Þetta er meðal niðurstaðna líffræðinga úr greiningum á fæðuvali refa sem lauk nýverið. Magainnihald refa var kannað við krufningar á innsendum refahræjum frá veiðimönnum og teknir úr refum sem veiddir voru að vetrarlagi. Skýrslan með niðurstöðum rannsóknarinnar er núkomin út og ber heitið „Hvað eru refirnir að éta – fæða íslenskra melrakka að vetrarlagi.“ Hana má finna á vefsetri Melrakkaseturs Íslands (www.melrakki.is).