20. janúar. 2015 01:17
Í hádeginu í dag var dregið í undanúrslit karla og kvenna í Powerade bikarkeppninni í körfubolta. Upp úr bikarskálinni góðu kom sú niðurstaða að toppliðin í Domino´s deildunum mætast í undanúrslitunum. Þannig þurfa Snæfellskonur að fara til Keflavíkur og karlalið KR fær Tindastól í heimsókn. Skallagrímsmenn duttu í lukkupottinn. Þeir fá heimaleik á móti Stjörnunni. Í hinum undanúrslitaleiknum í kvennakeppninni mætast Grindavík og Njarðvík. Leikdagar í undanúrslitum Powerade bikarsins eru 1.-2. febrúar næstkomandi.
Sveinbjörn Claessen leikmaður ÍR og Ingibjörg Jakobsdóttir Grindavík sáu um bikardráttinn í dag en þau eiga það sammerkt að hafa orðið bikarmeistarar á ferlinum.