21. janúar. 2015 09:01
Fyrir nokkrum árum tefldi knattspyrnufélag Víkings Ólafsvík fram þremur ungum og mjög góðum strákum og þar af voru tveir þeirra úr Grundarfirði. Einn af þessum þremur er enn eftir hjá Víkingi og lyfti á dögunum bikarnum fyrir Íslandsmeistaratitil í futsal (innanhússfótbolta). Þetta er Brynjar Kristmundsson sem um tíma lék í Pepsídeildinni með Val en sneri síðan heim á Snæfellsnesið að nýju. Brynjar hefur frá síðasta vori starfað á leikskólanum Sólvöllum í Grundarfirði. Þá var fljótlega komið fyrir mörkum á leikvellinum við skólann og fjölgað boltum. Stelpur og strákar hafa síðan notað margir stundir í fótbolta á leikskólanum og kunna mjög vel að meta að Brynjar sé með þeim. Kannski er Grundarfjörður nú um stundir að taka svolítið forskot á önnur bæjarfélög í landinu í uppeldi ungs knattspyrnufólks.
Blaðamaður Skessuhorns kom við á leikskólanum Sólvöllum í Grundarfirði á dögunum og spjallaði við Brynjar. Hann sagðist ekkert síður en börnin hafa gaman af því að mæta í leikskólann á morgnana. Brynjar á eftir ár af samningi sínum við Víking í Ólafsvík og hann segist að minnsta kosti verða að störfum á Sólvöllum fram á næsta haust.
Sjá spjall við Brynjar í Skessuhorni vikunnar.