Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
21. janúar. 2015 10:47

Myndband: Jöklarinn - mynd um Þórð á Dagverðará sýnd í kvöld

Á haustdögum lauk Kári G. Schram leikstjóri við gerð heimildakvikmyndar um Þórð Halldórsson á Dagverðará. Myndin heitir Jöklarinn og er um ævintýralegt lífshlaup Þórðar. Hún var frumsýnd í Bíó Paradís 21. nóvember síðastliðinn og hlaut lofsamlega umfjöllun í fjölmiðlum. Nú í kvöld klukkan 21:05 gefst landsmönnum kostur á að sjá myndina í Ríkissjónvarpinu.

 

Í myndinni er fjallað um fjölskrúðugt lífshlaup Þórðar á Dagverðará sem var oft lyginni líkast, enda stundum kallaður mesti lygari landsins. Þórður lenti í ótrúlegum mannraunum og ævintýrum á langri og strangri ævi og var allt í senn; sægarpur, refaskytta, listmálari, rithöfundur og skáld, mannvinur, náttúruverndarsinni, húmoristi og sagnaþulur. Hann varð því að þjóðsagnapersónu í lifanda lífi og alþýðuhetja sem ekki má gleymast. Minningin um Þórð varðveitist nú með heimildamyndinni Jöklarinn en við gerð myndarinnar naut hann liðsinnis Hollvinasamtaka Þórðar á Dagverðará sem stofnuð voru árið 2005 á 100 ára lífstíð Þórðar en hann lést tveimur árum áður, 2003 þá 98 ára gamall.

 

Kári G. Schram kvikmyndaleikstjóri hefur nokkra reynslu af gerð heimildamynda. Hann gerði m.a. Blikkið um sögu Melavallarins í Reykjavík en að þeirri vönduðu mynd vann hann í fimm ár. Við gerð Jöklarans leitaði Kári uppi ómetanleg myndbrot af Þórði á Dagverðaá í gegnum árin. Fjöldi fólks segir frá kynnum sínum af Þórði og hann sjálfur birtist ljóslifandi eins og maður með þúsund andlit. Eitt árið prýddi hann reyndar heimsalmanak Kodak.

 

Í myndinni er flakkað yfir mörg tímaskeið úr lífi Þórðar og við sjáum og kynnumst mörgum af helstu uppátækjum og lífhlaupi hans á einstaklega fallegan og sjónrænan hátt. Þar greinir frá ótrúlegustu ævintýrum sem hann rataði í á langri og fjölskrúðugri ævi. Kári leikstjóri segir að Þórður hafi umfram allt verið þjóðsagnapersóna og þjóðhetja sem vert er að minnast.

 

„Fólk þyrfti endilega að kynnast heimspeki hans sem ætti vel við í dag. Þórður kom víða við en var alls staðar manns gaman. Hann skapaði þó hálfpartinn uppþot hjá listasamfélaginu í borginni þegar honum tókst að komast með myndlistasýningu sína í Bogasalinn um miðjan níunda áratuginn. Hann var heimsborgari ef því var að skipta, þekkti bæði Kjarval og Dieter Roth. Kristnihald undir Jökli hefði ekki orðið til hjá Nóbelsskáldinu nema í gegnum sögurnar sem hann hafði frá Þórði. Hann var spunameistari og skáld. Hér var einstaklega frjór andi á ferð sem miðlaði og gaf óspart af öllum auðæfum sínum til að öðrum liði betur,“ segir Kári en heimildakvikmyndin Jöklarinn er 50 mínútur að lengd.

 

Frænka Þórðar á Dagverðará Ólína Gunnlaugsdóttir frá Hellnum sem nú starfrækir Samkomuhúsið á Arnarstapa, sagði frá því í viðtali við Magnús Þór Hafsteinsson í síðasta jólablaði Skessuhorn að hún hefði símskeyti um á það að Þórði hafi á sínum tíma verið boðið hlutverk afans í Brekkukotsannál. Ólína segir frá fundum Kiljan og Þórðar á Hótel Búðum áður en hann skrifaði Kristnihald undir Jökli. Ólína segir líka í þessu viðtali að hún sé búin að sjá heimildamyndina um Þórð frænda sinn og sér finnist myndin einstaklega fallega gerð.

 

Hér má sjá kynningarstiklu myndarinnar Jöklarinn. Eins og fyrr var greint þá verður hún sýnd á RUV klukkan 21:05 í kvöld.

 

 

Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is