22. janúar. 2015 06:01
Fjöldi fólks var saman kominn í húsnæði Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands í Borgarnesi síðastliðinn fimmtudag þegar Arionbanki og KPMG veittu styrki til nýsköpunar í Borgarbyggð. Fjögur nýsköpunarverkefni sem tekið hafa þátt í starfi frumkvöðla- og nýsköpunarsetursins Hugheima fengu afhenta styrki frá Arion banka og KPMG upp á samtals tvær milljónir króna. Arion banki veitti fjárstyrki að upphæð eina milljón og KPMG styrkti verkefnin um eina milljón í formi sérfræðiráðgjafar. Hugheimar eru samstarfsverkefni fjölmargra aðila en auk fyrrgreindra fyrirtækja standa eftirtaldir að verkefninu: Borgarbyggð, Kaupfélag Borgfirðinga, Nepal hugbúnaður, Símenntunarmiðstöð Vesturlands, SSV þróun og ráðgjöf, Háskólinn á Bifröst, Landbúnaðarháskóli Íslands, Verkís og Vitbrigði Vesturlands. Haraldur Örn Reynisson hjá KPMG notaði tækifærið og þakkaði þessum aðilum fyrir sinn þátt en að öðrum ólöstuðum bæri að þakka sérstaklega fyrir framlag Sigursteins Sigurðssonar hjá Vitbrigðum Vesturlands fyrir óeigingjarnt framlag.
Bernhard Þór Bernhardsson svæðisstjóri Arion banka á Vesturlandi og Haraldur Örn Reynisson endurskoðandi hjá KPMG í Borgarnesi afhentu styrkina. Í máli Bernhards kom fram að þegar Hugheimum var komið á fót hafi menn haft áhyggjur af því hvort þátttaka yrði nægjanlega mikil og verkefni líkleg til árangurs. Hugheimar hafa nú starfað í tæplega eitt ár og verkefnið gengið framar vonum. Öll skrifstofurými sem boðið er upp á í Hugheimum væru fullnýtt. Auk þess væri ljóst að af þeim verkefnum sem væru að fá styrki, að þau væru bæði metnaðarfull og líkleg til að skila árangri.
Verkefnin sem hlutu styrkina
Cloth of Ægir, verkefni Geirs Konráðs Theodórssonar. Það snýst um hönnun á klæðnaði, treflum og hálsklútum með innbyggðan búnaði til að vernda öndunarfæri gegn svifryki sem og öðrum óæskilegum efnum sem fylgja mengun í borgum eða mengun frá eldgosum. Frumgerð hefur verið þróuð og prófuð og komið að næsta stigi verkefnisins.
Íslenskar ilmolíur frá Rauðsgili, verkefni Hraundísar Guðmundsdóttur. Það snýst um að framleiða hágæða náttúruvörur í hreinni náttúru Íslands og auka um leið fjölbreytni í búskap, sem og nýta þekkingu, ræktarland og útihús sem eru til staðar til að skapa atvinnu í uppsveitum Borgarfjarðar. Hafin er ræktun á nytjaplöntum og ilmolíuframleiðsla er á tilraunastigi.
Búdrýgindi ehf, verkefni Bryndísar Geirsdóttur og Guðna Páls Sæmundssonar. Það snýst um markaðssetningu og sölu erlendis á sjónvarpsþáttunum „Hið blómlega bú.“ Einnig um að þróa og útfæra nánar verkefnið hið Blómlega bú, umfang þess og sóknarfæri til dæmis er varðar vöruþróun svo sem bókaútgáfu o.fl. Sjónvarpsþættirnir hafa náð miklum vinsældum og hafa reynst mikilvægt framlag til þess að koma Borgarfirði á kortið sem matvælaframleiðslusvæði og reynst verðmætur stuðningur við vaxtarbrodda í þeirri grein.
Seyla ehf, verkefni Elísabetar Axelsdóttur. Það snýst um að bjóða upp á þjónustu til efnagreiningar á jarðvegi, heyi og loðdýrafóðri. Þar er gert ráð fyrir að fjárfesta í öflugum búnaði til efnagreiningar sem mun bæta verulega þjónustu við bændur og aðra aðila sem hafa nýtt sér þessar greiningar. Sem og að koma í veg fyrir að mikilvæg sérfræðistörf og þekking flytjist í auknum mæli til útlanda. Auk þess mun verða lögð áhersla á að bjóða öðrum aðilum að nýta sér þjónustu á sviði efnagreininga en tækifærin eru mörg á því sviði.
Samningur við Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Að lokinni afhendingu styrkja hélt Sigurður Steingrímsson hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands fróðlegt erindi um starf og stuðning Nýsköpunarmiðstöðvarinnar við frumkvöðla og nýsköpun. Að erindi loknu undirrituðu Haraldur Örn og Sigurður samstarfssamning milli Hugheima og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Markmið samningsins er að efla samstarf milli aðila í þeim tilgangi að skapa faglegt umhverfi fyrir frumkvöðla og/eða verkefni sem teljast frumkvöðlaverkefni og geta styrkt Vesturland sem atvinnusvæði. Að lokum bað Haraldur Örn gesti um að hafa í huga að mikilvægasti styrkurinn fyrir frumkvöðla væri að samfélagið hampaði áræðni þeirra og dug. Hvatti hann gesti til að staldra við og kynnast þeim frumkvöðlum sem fengu styrkjuna og þeim sem væru með aðsetur í Hugheimum.