22. janúar. 2015 09:01
Félagar úr Hollvinasamtökum Bifrastar hafa tekið höndum saman og stofnað sérstakan Hollvinasjóð Bifrastar. Sjóðurinn er með það markmið meðal annars að styðja starfsemi og áframhaldandi öfluga þróun Háskólans á Bifröst. Liðlega 900 Bifrestingar hafa þegar greitt stofnframlag til sjóðsins, sem er stofnaður samkvæmt lögum nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Stjórn sjóðsins hyggst m.a. afla tekna frá vinveittum fyrirtækjum og einstaklingum og ætlar fyrst í stað að leggja áherslu á nauðsynlegt viðhald á „andliti skólans,“ þ.e. upphaflegu byggingunum á Bifröst, meistaraverki Sigvalda Thordarsonar, setustofunni (Kringlunni) og hátíðarsalnum. Áætlaður heildarkostnaður við endurnýjun á gluggum og ytra byrði byggingarinnar nemur tugum milljóna króna, en gert er ráð fyrir að viðhaldsvinnunni verði skipt í ákveðna verkþætti.
Formaður stjórnar Hollvinasjóðsins er Óli H. Þórðarson, fyrrverandi framkvæmdastjóri. Aðrir stjórnarmenn eru Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi viðskiptastjóri og Þorvaldur Tómas Jónsson fjármálastjóri. Þeir Óli og Viðar sitja í stjórnininni af hálfu Hollvinasamtaka Bifrastar, en stjórn Háskólans á Bifröst tilnefndi Þorvald, en hann er framkvæmdastjóri fjármála við skólann.
„Til lengri tíma litið er gert ráð fyrir að hollvinasjóðurinn sinni öðrum mikilsverðum málefnum í skólastarfinu, svo sem að styrkja rannsóknaverkefni og veita viðurkenningar til nemenda og kennara. Allt mun það þó miðast við að velunnarar Bifrastar leggi sjóðnum til ríflegt fjármagn á komandi tímum. Af hálfu skólans munu þau fyrirtæki sem styrkja sjóðinn eiga þess kost, á góðum kjörum, að njóta sérþekkingar öflugs kennaraliðs Háskólans á Bifröst, svo sem á sviði viðskiptaráðgjafar og námskeiðahalds fyrir starfsmenn sína. Tekið skal fram að samkvæmt skattalögum er heimilt að færa framlög til hollvinasjóðsins til frádráttar tekjum, með ákveðnum almennum skilyrðum,“ segir í tilkynningu.
Föstudaginn 16. janúar kom hópur áhugamanna og velunnara Hollvinasjóðsins saman í húsakynnum Háskólans á Bifröst í Reykjavík til þess að leggja á ráðin um frekari fjáröflun, sem stjórn sjóðsins hyggst nú ráðast í. Má líta á hópinn sem fulltrúa þeirrar fjöldahreyfingar sem stendur að Hollvinasamtökum Bifrastar.
Á myndinni eru: Standandi: Sigrún Hermannsdóttir, Regína Sigurgeirsdóttir og Þórir Páll Guðjónsson úr stjórn Hollvinasamtaka Bifrastar, Ómar Valdimarsson framkvæmdastjóri Samkaupa, Leifur Runólfsson formaður Hollvinasamtakanna, Gísli Jónatansson fyrrv. kaupfélagsstjóri, Anna Elísabet Ólafsdóttir aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst og Guðsteinn Einarsson kaupfélagsstjóri í Borgarnesi og formaður háskólastjórnar á Bifröst. Fremst sitja stjórnarmenn Hollvinasjóðsins; Þorvaldur Tómas Jónsson ritari, Óli H. Þórðarson formaður og Viðar Þorsteinsson gjaldkeri.