25. janúar. 2015 12:19
Með óveðurslægðinni sem nú stefnir á Snæfellsnes hvessir og kólnar. Versnar veður mjög suðvestanlands undir hádegið, stormur verður með allt að 20-25 m/s og dimmum éljum. Á fjallvegum á Vesturlandi, svo sem á Vatnaleið, Bröttubrekku og Holtavörðuheiði verður einnig mjög hvasst frá því skömmu eftir hádegi. Skyggni verður mjög takmarkað í hryðjunum og skafrenningur þegar frá líður. Því er spáð að veður lagist mikið í kvöld.
Í tilkynning frá Vegagerðinni nú laust fyrir hádegi segir að flughálka og óveður sé á Bröttubrekku, flughálka er einnig á Laxárdalsheiði og í kringum Búðardal. Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði. Þæfingsfærð er á Heydal og þungfært í Álftafirði og frá Arnarstapa að Fróðárheiði. Hálka eða krapasnjór er á öðrum leiðum á Vesturlandi.