26. janúar. 2015 06:01
Eins og ítarlega var kynnt í síðasta tölublaði Skessuhorns höfðu Faxaflóahafnir frumkvæði að forathugun á rekstrarlegum forsendum þess að hafnar yrðu reglubundnar siglingar milli Reykjavíkur og Akraness með hraðskreiðum farþegabáti. Niðurstaða þeirrar skýrslu var í grófum dráttum á þá lund að verkefnið gæti reynst rekstrarlega hagkvæmt en myndi trauðla standa undir afborgunum af stofnkostnaði. Niðurstaðan var engu að síður nógu jákvæð til þess að undir lok síðustu viku undirrituðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri á Akranesi viljayfirlýsingu þess efnis að sveitarfélögin hefji sameiginlega skoðun á því hvort flóasiglingar á milli Akraness og Reykjavíkur geti verið góður valkostur í almenningssamgöngum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.