27. janúar. 2015 12:35
Fjarskiptafyrirtækið Hringdu býður nú viðskiptavinum sínum upp á ótakmarkað gagnamagn á öllum nettengingum sínum. Þetta þýðir að þeir sem hlaða niður miklu efni af netinu, t.d. kvikmyndum, tónlist, tölvuleikjum og öðru stærra efni hafa ótvíræðan hag af slíkri þjónustu. Síðastliðið sumar hóf Hringdu sölu á ADSL-tengingum með ótakmörkuðu gagnamagni. Nú hefur þessu verið fylgt eftir til fulls með því að hefja sölu á ljósneti og ljósleiðara með ótakmörkuðu gagnamagni. Þar með þurfa notendur ekki lengur að leiða hugann að því hvaðan eða hversu mikið af gögnum er sótt eða sent. Greitt er fast gjald og engin aukagjöld. „Á meðan helstu keppinautar okkar eru byrjaðir að telja allt gagnamagn höfum við ákveðið að hætta því,“ er haft eftir Kristni Péturssyni, forstöðumanni sölu- og þjónustusviðs Hringdu, í tilkynningu frá fyrirtækinu. „Við fetum þannig í fótspor frænda okkar á Norðurlöndunum sem lengi hafa selt hraða fram yfir gagnamagn,“ segir Kristinn.