28. janúar. 2015 11:01
Umferð um Hvalfjarðargöng á síðasta ári jókst um 3% frá fyrra ári og var að jafnaði 5.360 ökutæknum ekið þar um á sólarhring. Mesta umferðin frá upphafi var 2008 eða um 5.500 ökutæki á sólarhring að jafnaði og stendur það met því enn óhaggað. Alls fóru liðlega tvær milljónir ökutækja um göngin á metárinu 2008 og það er eina árið þar sem tveggja milljóna múrinn var rofinn. Næstmesta umferðin var 2009 um 1.970.000 bílar, þar á eftir kemur 2010 um 1.953.000 og fjórða mesta umferðin var svo á nýliðnu ári um 1.944.000 bílar. Á vef Spalar segir að hafa beri í huga að í október síðastliðnum voru Hvalfjarðargöng lokuð vegna malbikunar heila helgi, frá föstudagskvöldi til mánudagsmorguns, í fyrsta skipti frá því þau voru opnuð sumarið 1998. Ætla má að umferðin 2014 hefði annars orðið sú þriðja mesta frá upphafi.
Vegagerðin segir aðra sögu af hringveginum. Þar mældist meiri umferð 2014 en frá upphafi mælinga og jókst um nær 6% frá fyrra ári. Þá jókst umferðin á hringveginum í desember 2014 um ríflega 6%, miðað við sama mánuð 2013. Í Hvalfjarðargöngum dróst hins vegar umferðin í desember saman um 1,6% frá sama mánuði 2013. Langmest umferð var á hringveginum á föstudögum og þar á eftir komu sunnudagar. Fólk er minnst á ferðinni á þriðjudögum. Á höfuðborgarsvæðinu var mest umferð á föstudögum en langminnst á sunnudögum.