29. janúar. 2015 08:01
Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands afhenti síðastliðinn mánudag Samtökum atvinnulífsins kröfugerð sína vegna komandi kjarasamninga. Kröfurnar mótuðust á fundum í verkalýðsfélögum og á vinnustöðum um land allt og með hliðsjón af niðurstöðu viðhorfskannana. Þá ber kröfugerðin óneitanlega keim þeirra samninga sem nýverið hafa verið gerðir á vinnumarkaði, meðal annars í samningum sveitarfélaga við kennara og ríkisins við lækna. Fram hefur komið í viðtölum við forsvarsmenn launþegahreyfingarinnar að hjá þeim samningum verði ekki litið í kröfugerðinni nú. Í tilkynningu frá SGS segir að kröfugerðin hafi orðið til í víðtæku, lýðræðislegu ferli í verkalýðshreyfingunni þar sem öllum félagsmönnum gafst kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif. Meginkröfur Starfsgreina-sambandsins eru að miða krónutöluhækkanir á laun við að lægsti taxti verði 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára og sérstaklega verði horft til gjaldeyrisskapandi atvinnugreina við launahækkanir. Samninganefnd Starfsgreinasamband Íslands hefur samningsumboð 16 verkalýðsfélaga innan SGS. Flóafélögin þrjú fara sjálf með sitt umboð. SGS er stærsta landssambandið innan Alþýðusambands Íslands og hefur um 50.000 félagsmenn innan sinna vébanda í 19 félögum.
Í Skessuhorni er rætt við tvo af þremur forkólfum verkalýðshreyfingarinnar á Vesturlandi og könnuð viðbrögð þeirra við kröfugerð SGS.