29. janúar. 2015 09:32
Lið Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi komst áfram í undanúrslit Gettu betur í gærkvöld, þegar liðið vann sigur á Flensborg í fyrsta þætti keppninnar í sjónvarpi. Flensborg hafði fimm stiga forystu undir það síðasta en FVA tókst að snúa blaðinu við á lokasprettinum og vann með einu stigi, 24:23. Síðasta spurning kvöldsins snerist um brúðarkjóla fræga fólksins og átti Flensborg svarréttinn. Liðsmenn Flensborgar svöruðu spurningunni rangt og færðist því svarrétturinn yfir til FVA sem hafði betri þekkingu á kjólunum. Þau svöruðu spurningunni rétt og lönduðu sigri. Anna Eze, Elmar Gísli Gíslason og Jón Hjörvar Valgarðsson hafa því brotið blað í sögu skólans því þetta er í fyrsta sinn sem FVA kemst í undanúrslit í Gettu betur.
Önnur lið sem keppa munu í sjónvarpi eru lið Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Fjölbrautaskóla Garðabæjar, Menntaskólans á Akureyri, Menntaskólans við Hamrahlíð, Menntaskólans í Reykjavík og Kvennaskólans í Reykjavík. Undanúrslit fara fram dagana 25. febrúar og 4. mars og verður úrslitakeppnin sjálf haldin miðvikudaginn 11. mars.