26. janúar. 2005 10:21
Rafmagn fór af Norðurárdalslínu rétt um klukkan hálf átta í gærkvöld og var rafmagnslaust frá Bifröst og á svæðinu niður að Varmalandi í Stafholtstungum vegna þessa. Ástæða bilunarinnar var sú að vegavinnuverktaki sem var að sprengja fyrir nýju vegstæði skammt fyrir ofan Munaðarnes sprengdi háspennulínu í sundur og tók það vinnuflokk úr Borgarnesi tæpa 5 klukkutíma að bæta strenginn og koma rafmagni á alla veituna að nýju.
Mikið var hringt og kvartað vegna rafmagnsleysisins því landsleikur Íslands og Slóveníu var nýlega hafinn í sjónvarpinu þegar straumurinn fór af. Íbúar á Bifröst og nágrenni misstu því af bráðfjörugum landsleik þar sem Íslendingar leiddu allt til lokamínútunnar eða þar til sigurinn lak þeim úr höndum og Slóvenar sigruðu með eins marks mun.