26. janúar. 2005 05:39
Aðfararnótt sl. laugardags var maður handtekinn af lögreglunni á Akranesi vegna gruns um fíkniefnamisferli. Lögreglumenn höfðu hann grunaðan um að hafa fíkniefni undir höndum og höfðu fylgst með ferðum hans um tíma. Um kl. 2 um nóttina var ákveðið að hafa afskipti af manninum þar sem hann var á ferð í bænum. Er hann varð lögreglumannanna var kastaði hann frá sér tveimur litlum bögglum sem reyndust innihalda um tvö grömm af ætluðu kókaíni. Maðurinn var handtekinn og í framhaldi framkvæmd húsleit heima hjá honum. Við leitina fundust svo um fjögur grömm af hassi. Málið er í rannsókn.
Sl. nótt stöðvuðu svo lögreglumenn bifreið við umferðareftirlit. Í bifreiðinni voru þrír ungir menn og þótti hegðun þeirra eitthvað einkennileg. Ákveðið var að skoða nánar hvað þarna var á ferð og var framkvæmd lausleg leit á vettvangi. Fundust þá fjögur grömm af ætluðu amfetamíni sem einn þeirra hafði látið falla á jörðina. Í framhaldi af þessu voru mennirnir færðir á lögreglustöð og fór þar fram ítarlegri leit og fundust þá í bifreiðinni 160 grömm af hassi. Mennirnir viðurkenndu við yfirheyrslur í nótt að eiga efnin saman og að hluti þeirra hafi verið ætlaður til sölu norður í landi. Þeir voru látnir lausir í morgunsárið en málið er í rannsókn.