26. janúar. 2005 05:32
Samkvæmt frétt á heimasíðu Sparisjóðs Mýrasýslu hefur sjóðurinn gert öllum stofnfjáreigendum Sparisjóðs Ólafsfjarðar tilboð um kaup á öllu stofnfé í sparisjóðnum. Tilboðið er með þeim fyrirvara að allir stofnfjáreigendur þurfa að samþykkja að selja Sparisjóði Mýrasýslu stofnfjáreign sína. Stjórn Sparisjóðs Ólafsfjarðar hefur tekið málið fyrir og mælir með því við stofnfjáreigendur að þeir samþykki tilboðið.
Samkvæmt fréttinni eru engar breytingar fyrirhugaðar á starfsmannahaldi hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar, verði fyrirhuguð kaup að veruleika. Viðskiptavinir sparisjóðsins eiga ekki að verða varir við þessa breytingu ef af verður. Þegar gerð Héðinsfjarðargangna verður lokið þá er áætlað að Sparisjóður Siglufjarðar og Sparisjóður Ólafsfjarðar renni saman en Sparisjóður Siglufjarðar er 100% í eigu Sparisjóðs Mýrasýslu. Þá segir einnig að ekki séu fyrirhugaðar neinar breytingar á starfsmannahaldi hjá Sparisjóði Mýrasýslu né Sparisjóði Siglufjarðar í kjölfar þessara kaupa.