03. apríl. 2015 12:01
Í gærkvöldi, á kvöldi skírdags, frumflutti Steinunn Jóhannesdóttir leikkona og rithöfundur flutning sinn á örlagasögu hjónanna Hallgríms Péturssonar og Guðríðar Símonardóttur. Það var í Landnámssetrinu í Borgarnesi.
Salurinn var fullsetinn áheyrendum þar sem Steinunn sagði frá stórmerku lífi þessarra 17. aldar hjóna af innlifun og þekkingu. Næsti flutningur Steinunnar í Landnámssetrinu verður 12. apríl næstkomandi.
Í dag, föstudaginn langa, verður síðan lestur á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar í Borgarneskirkju. Fimm hjón lesa sálmana. Það eru: Guðrún Jónsdóttir og Einar Pálsson, Inga Dóra Halldórsdóttir og Páll S. Brynjarsson, Steinunn Jóhannesdóttir og Einar Karl Haraldsson, Sigríður Margrét Guðmundsdóttir og Kjartan Ragnarsson og Anna Guðmundsdóttir og Þorbjörn Hlynur Árnason. Tónlist milli sálma flytja þær Steinunn Árnadóttir og Jónína Erna Arnardóttir.
Lesturinn hefst klukkan 13:30. Áætlað er að hann standi alls í um fimm klukkstundir. Fólki er heimilt að koma og fara að vild. Þetta mun í fyrsta sinn sem Passíusálmar eru fluttir í Borgarneskirkju.