14. apríl. 2015 10:10
Eins og hefð er fyrir verða stórtónleikar í Frystiklefanum í Rifi að kvöldi sumardagsins fyrsta, 23. apríl næstkomandi. Hljómsveitina Mammút þarf vart að kynna. Sveitin vann músíktilraunir á sínum tíma og báðar breiðskífur hljómsveitarinnar, Karkari og Komdu til mín svarta systir, unnu verðlaun fyrir bestu plötuna á íslensku tónlistarverðlaununum. Sveitin hefur einnig unnið til fjölda annarra verðlauna og komið fram á tónlistarhátíðum um allan heim. Mammút er þekkt fyrir kraftmikla og skemmtilega sviðsframkomu og er það mikill fengur að fá sveitina hingað í sveitina.
Sveitinni til halds og trausts verður heimastúlkan Alda Dís, stórsönkkona og nýkrýndur sigurvegari Ísland got talent. Alda kemur fram með stórgóðum tónlistarmanni og flytur frumsamið efni í bland við nokkrar flottar ábreiður. „Sumarið er á næsta leiti og því fyllsta ástæða til þess að skella sér á tónleika og fagna betri tíð. Miðasala á viðburðinn er í fullum gangi á Midi.is og fólk er hvatt til þess að tryggja sér miða með góðum fyrirvara,“ segir í tilkynningu.