16. apríl. 2015 10:01
Söngleikurinn Grease var frumsýndur í Bíóhöllinni á Akranesi síðastliðinn föstudag. Nemendafélag Fjölbrautaskóla Vesturlands stendur fyrir uppsetningunni og er þetta í fyrsta sinn sem þessi heimsþekkti söngleikur er settur upp á Skaganum. Sagan gerist í bandarískum menntaskóla á sjötta áratug síðustu aldar þar sem rokkið var komið fram á sjónarsviðið með öllu sínu lífi og fjöri, tónlist og dansi. Fjöldi nemenda Fjölbrautaskóla Vesturlands koma að sýningunni sem leikarar, söngvarar, dansarar og tónlistarfólk. Hallgrímur Ólafsson (Halli Melló) er leikstjóri. Birgir Þórisson sér um tónlistarstjórnun, Emilía Ottesen er danshöfundur og Ingþór Bergmann tæknistjóri. Sýnt verður í Bíóhöllinni nú í apríl. Nánari upplýsingar má nálgast á Facebook-síðu uppsetningarinnar; Leiksýning NFFA Grease. Kaupa má miða á sýninguna á midi.is. Þar eru þeir nú rifnir út og er sýningin sú vinsælasta í sölu þar þegar þetta er skrifað.
Í Skessuhorni vikunnar er ítarlega fjallað um sýninguna í máli og myndum.